Rómantísk viðmið og gagnkynhneigðarhyggja
„Amatonormativity“ er nýlegt og flókið enskt orð yfir fyrirbærið að álykta að allir sem þú hittir séu aðrómantískir og aðkynhneigðir. Þetta er byggt á hugmyndinni um gagnkynhneigðarhyggju sem þýðir meðal annars „meðvituð eða ómeðvituð kerfisbundin andúð í garð fólks sem ekki er gagnkynhneigt. “ (Vísindavefurinn).
Amatonormativity (okkur vantar sárlega góða íslenska þýðingu! Ásthyggja?) hefur áhrif á svo marga, ekki aðeins ása og óróa því að hér er verið að forgangsraða mjög þröngri hugmynd af ást fram yfir aðrar gerðir. Svona Hallmark bíómynda ást þar sem fólk gengst við afmörkuðum hlutverkum til þess að vera gjaldgeng í gagnkynhneigðu, einkvænu sís samfélagi (heterosexual, monogamous, cis). Það er semsagt ekki vel séð að vera hinsegin, kynsegin eða fjölásta og heldur ekki í lagi að hafa engan áhuga.
Við erum frekar heppin í íslensku þjóðfélagi að fordómar gegn eikynhneigðum og eirómantískum eru ekki eins slæmir og annarsstaðar en kannski er það eingöngu vegna þess að fáir vita hvað það þýðir. Allt of margir eikynhneigðir og eirómantískir einstaklingar finna fyrir því að þeir verði að giftast og eignast börn því annars er eitthvað að þeim. Þeir kvíða því jafnvel að hitta vinnufélaga og fjölskyldumeðlimi út af því öráreiti sem þeir verða fyrir.
Ertu ekki komin með kærustu? Áttu ekki börn? Viltu ekki börn? Þú munt skipta um skoðun! Þú finnur einhvern! Ertu ekki einmana? Ætlarðu að verða piparkelling með kött?
Þetta er nú yfirleitt ekki illa meint en gerir lítið úr upplifun fólks sem ekki passar inn í þessi rómantísku viðmið samfélagsins og setur oft pressu á fólk að gera hluti sem það hefur engan áhuga á.